Strákarnir okkar luku leik á fjögurra landa mótinu í handbolta í Þýskalandi í dag með því að tapa fyrir heimamönnum, 32:24. Sigurinn tryggði Þýskalandi sigur á mótinu en Ísland endar í öðru sæti eftir sigra gegn Austurríki og Rússlandi.

Eins og tölurnar gefa til kynna voru Þjóðverjar mikið betri aðilinn í dag á öllum sviðum handboltans. Varnarleikur Íslands var skelfilegur og markvarslan nær engin til að byrja með en Aron Rafn kom þó inn á og varði ellefu skot.

Sóknarleikurinn var mun slakari en í hinum tveimur leikjum mótsins en Þjóðverjarnir neyddu okkar stráka mikið í langskot sem Dario Quenstedt varði auðveldlega í markinu.

Aron Pálmarsson spilaði fyrstu mínútur leiksins en kom svo ekkert meira við sögu. Kári Kristján Kristjánsson og Snorri Steinn Guðjónsson enduðu markahæstir með fimm mörk hvor.

Mörk Íslands:Snorri Steinn Guðjónsson 5/4, Kári Kristján Kristjánsson 5, Ásgeir Örn Hallgrímsson 4, Rúnar Kárason 3, Gunnar Steinn Jónsson 2, Ólafur Guðmundsson 2, Bjarki Már Elísson 1, Vignir Svavarsson 1, Árni Steinn Steinþórsson 1.

Varin skot:Aron Rafn Eðvarðsson 11/1 (þar af 3 aftur til mótherja), Björgvin Páll Gústavsson 5 (þar af 2 aftur til mótherja).

Tekið af mbl.is.