Íslenska landsliðið í handknattleik karla vann það danska með eins marks mun, 30:29, í Álaborg í kvöld í kappleik á fjögurra þjóða æfingamóti fyrir heimsmeistaramótið. Ísland var marki yfir í hálfleik, 18:17, og lét forystuna aldrei af hendi í síðari hálfleik. Þetta var tvímælalaust besti leikur íslenska landsliðsins frá Evrópumeistaramótinu fyrir ári síðan.
Óhætt er að segja að íslenska liðið hafi sent skýr skilaboð um styrkleika sinn því Danir tapa ekki á hverjum degi á heimavelli með sitt sterkasta lið og full hús áhorfenda á bak við sig.
Eins og áður segir þá hafði íslenska liðið yfirhöndina allan síðari hálfleik. Það komst með fimm mörk yfir, 22:17. Sóknarleikurinn var frábær þar sem Aron Pálmarsson, Alexander Petersson, Ásgeir Örn Hallgrímsson og Róbert Gunnarsson fóru á kostum og voru fremstir meðal jafningja.
Varnarleikurinn var góður í síðari hálfleik og þá vaknaði Aron Rafn Eðvarðsson af værum blundi í markinu og varði vel.
Það eru engar ýkjur að um er að ræða besta leik íslenska landsliðsins frá því á Evrópumeistaramótinu fyrir ári síðan. Endurkoma Arons Pálmarssonar í landsliðshópinn gjörbreytir sóknarleiknum.
Þetta var fyrsti leikur Dana gegn Íslendingum eftir að Guðmundur Þórður Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, tók við þjálfun danska landsliðsins í sumar.
Lokaleikur Íslands á mótinu og fyrir heimsmeistaramótið í Katar verður við Slóvena í Árósum á morgun og hefst kl. 13.45.
Mörk Íslands: Alexander Petersson 7, Róbert Gunnarsson 5, Stefán Rafn Sigurmannsson 5, Aron Pálmarsson 4, Ásgeir Örn Hallgrímsson 4, Arnór Þór Gunnarsson 3/3, Bjarki Már Gunnarsson 1, Snorri Steinn Guðjónsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 10 (þaraf 2 til mótherja). Björgvin Páll Gústavsson 2.
Tekið af mbl.is.