Stelpurnar í U17 ára landsliðinu unnu stórkostlegan sigur á sterkum Pólverjum í undanúrslitum á EM B-deild á Ítalíu í dag 25-23.
Pólsku stelpurnar byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu fimm mörk leiksins. Íslenska liðið var lengi í gang og skoraði ekki fyrsta markið fyrr en 7 mínútur voru liðnar af leiknum. Sóknarleikur liðsins var stirður og áttu íslensku stelpurnar í erfiðleikum með að finna leið framhjá firnasterkri og hreyfanlegri vörn Pólverja. Þá brugðu stelpurnar á það ráð að setja aukamann í sóknina. Þá liðkaðist sóknarleikur liðsins og sjálfstraustið jókst með. Vörnin varð þéttari og smátt og smátt náðu stelpurnar að vinna sig betur inn í leikinn. Pólska liðið hafði þó þriggja marka forskot í hálfleik, 15-12.
Síðari hálfleikur hófst með marki frá Póllandi og því stelpurnar fjórum mörkum undir strax í upphafi. Íslenska liðið hélt baráttu sinni áfram og náði að minnka muninn í eitt mark um miðjan seinni hálfleikinn. Þá setti pólska liðið í næsta gír og jók muninn aftur í 3 mörk þegar um 10 mínútur lifðu leiks. Pólska liðið tók leikhlé í stöðunni 22-19 og íslenska liðið setti aftur aukamann inn í sóknina. Vörnin small í lás og síðustu 10 mínúturnar náðu pólsku stelpurnar að skora aðeins 1 mark. Íslenska liðið náði að komast yfir í fyrsta skiptið í leiknum í stöðunni 23-22 þegar um 3 mínútur voru eftir af leiknum. Magnaður endasprettur hjá liðinu skilaði ótrúlegum 6-1 kafla og tryggði íslenska liðinu glæsilegan 25-23 sigur. Úrslitaleikurinn fer fram á morgun kl 15 á íslenskum tíma en þá mæta stelpurnar Tékkum aftur.
Mörk Íslands skoruðu: Ásdís Þóra Ágústsdóttir 11, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 3, Jóhanna Sigurðardóttir 3, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 1, Andrea Gunnlaugsdóttir 1, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir 1, Katrín Tinna Jensdóttir 1, Ída Margrét Stefánsdóttir 1.
Andrea Gunnlaugsdóttir varði 7 skot í markinu og Lísa Bergdís Arnarsdóttir 2 skot.