Ásthildur Lóa Þórsdóttir sem tók við embætti Íþrótta-, mennta- og barnamálaráðherra í lok desember fór í sína fyrstu opinberu ferð til útlanda þegar hún var á meðal áhorfenda á leik Íslands og Grænhöfðaeyja í fyrsta leik Heimsmeistaramótsins sem fram fer í Zagreb í Króatíu.
Fyrir leikinn settust þau Ásthildur Lóa og Jón Gunnlaugur íþróttastjóri HSÍ saman niður og fóru yfir starf HSÍ, skipulag og undirbúning landsliðsins og íþróttaumhverfið í handboltanum á Íslandi. Það er svo sannarlega í mörgu að hyggja þegar landsliðin okkar taka þátt í stórmóti en Ásthildur fékk meðal annars góða innsýn inn í það starf sem þjálfarateymið vinnur á og í kringum Heimsmeistaramótið sem nú fer fram.
Þau fóru einnig yfir grasrótarstarfið heima á Íslandi og þá mikilvæga starf sem aðildarfélög HSÍ vinna dag hvern fyrir ungmenni á landinu.
Þess má til gamans geta að Ásthildur Lóa kemur af miklu íþróttafólki en faðir hennar, Þór Símon Ragnarsson sat sem formaður Víkings í 12 ár ásamt því að sitja meðal annars í stjórn KSÍ í yfir 10 ár.