Aganefnd HSÍ | Úrskurður 17.12. ’24

Úrskurður aganefndar 17. desember 2024

Eftirtalin mál lágu fyrir og var tekið til úrskurðar:

  1. Ísak Logi Einarsson leikmaður Stjörnunnar hlaut útilokun vegna mjög grófs leikbrots í leik Vals og Stjörnunnar í Olís deild karla 14.desember 2024.

Í agaskýrslu dómara sem liggur frammi fyrir aganefnd, kemur fram að við skoðun á framangreindu atviki á myndbandsupptöku fékk rangur leikmaður rautt spjald. Samkvæmt agaskýrslu dómara var útilokun leik­mannsins því dregin til baka þar sem rangan leikmann hafi verið um að ræða.

Í samræmi við framangreint er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar í málinu.

  1. Þann 10. desember sl. barst aganefnd erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ vegna hegðunar forsvarsmanns Harðar eftir leik Harðar 2 og Vængja Júpiters í 2. deild karla þann 30. nóvember sl. og kröfu sem stofnuð var í einkabanka dómara.

Í erindinu er því lýst að framkvæmdastjóra HSÍ hafi borist upplýsingar þess efnis, að umræddur aðili hafi í kjölfar framangreinds leiks ítrekað reynt að setja sig í samband við annan dómara leiksins og ekki látið af þeirri hegðun, þrátt fyrir beiðni þar um. Þá hafi handknattleiksdeild Harðar í kjölfarið stofnað tilhæfulausa kröfu í einkabanka dómarans að fjárhæð kr. 150.000.

Aganefnd barst greinargerð frá handknattleiksdeild Harðar vegna málsins. Er þar m.a. bent á að sá aðili sem erindið beinist að sé ekki forráðamaður deildarinnar, heldur styrktaraðili, velunnari og sjálfboðaliði hjá félaginu. Í greinargerðinni er tekið fram að umræddur aðili hafi ekki komið að stofnun umræddrar kröfu í heimabanka dómarans. Hins vegar staðfestir félagið að krafan hafi verið stofnuð á vegum félagsins og virðist á því byggt að það hafi verið réttlætanlegt þar sem dómarinn olli félaginu skaða.

Þá hafa aganefnd borist gögn sem sýna fram á þau samskipti sem lýst er í erindi framkvæmdastjóra HSÍ.

Í 6. kafla reglugerðar HSÍ um agamál er fjallað um ósæmilega framkomu. Í 18. gr. reglugerðarinnar segir:

Stjórn eða framkvæmdastjóra HSÍ er heimilt að vísa til úrskurðar aganefndar hvers konar atvikum, svo sem bæði leikbrotum, agabrotum brotum á lögum/reglugerðum HSÍ, hvers kyns óíþróttamannslegri háttsemi, eða háttsemi sem geta skaðað ímynd handknattleiksíþróttarinnar hvort sem viðkomandi hafi tekið þátt í leiknum eða ekki. Um getur verið að ræða hvers kyns ósæmilega framkoma innan eða utan leiks eða á annan hátt opinberlega.

Stjórn eða framkvæmdastjóra HSÍ er einnig heimilt að vísa til úrskurðar aganefndar hvers kyns óíþróttamannslegri háttsemi eða háttsemi sem geta skaðað ímynd handknattleiksíþróttarinnar á vegum félaga, stuðningsaðila, styrktaraðila eða öðrum tengdum aðilum.

Með vísan til framangreinds er það mat aganefndar að sá einstaklingur sem erindi það sem hér er til umfjöllunar beinist að, telst í öllu falli stuðningsaðili, styrktaraðili eða annar tengdur aðili í skilningi reglugerðarinnar. Enn fremur hefur félagið gengist við því að fjárkrafa, sem beint var persónulega að dómara leiksins vegna starfa hans sem dómari, stafi frá félaginu og hafi verið send í einkabanka dómarans af þar til bærum aðila á vegum félagsins. Hafa engin haldbær rök verið færð fram fyrir þeirri kröfu eða að hún eigi nokkurn rétt á sér. Er það mat aganefndar að um sé að ræða óíþróttamannslega háttsemi á vegum félagsins sem var til þess fallin að skaða ímynd handknattleiksíþróttarinnar.

Er það niðurstaða aganefndar að gera handknattleiksdeild Harðar sekt að fjárhæð kr. 110.000, sbr. 21. gr. reglugerðarinnar.

Fleiri mál lágu ekki fyrir.

Úrskurðinn kváðu upp Sverrir Pálmason, Arnar Kormákur Friðriksson og Ágúst Karl Karlsson