A kvenna | Annað svekkjandi tap gegn Sviss

Ísland og Sviss mættust í seinni vináttuleik sínum í Sviss í dag. Okkar konur voru staðráðnar í að hefna fyrir grátlegt tap á föstudaginn síðastliðinn.

Óhætt er að segja að aðeins hafi verið eitt lið á vellinum fyrstu 20 mínútur leiksins, en íslensku stelpurnar stóðu fantaþétta vörn sem skilaði góðum mörkum. Sviss komst þó inn í leikinn undir lok fyrri hálfleiks, en Ísland leiddi í hálfleik með 12-9.

Stelpurnar héldu dampi lengst af í síðari hálfleik, en undir lokin gáfu þær aðeins eftir. Sviss jafnaði og komst yfir í fyrsta sinn þegar 55 mínútur voru liðnar af leiknum, 26-27. Svisslendingar héldu þessu eina marki forskots allt til loka, og niðurstaðan var svekkjandi tap eftir frábæra frammistöðu. Allir leikmenn íslenska liðsins komu við sögu í leiknum. Lokatölur: Ísland 28 – 29 Sviss.

Mörk Íslands:

Andrea Jacobsen 9, Dana Björg Guðmundsdóttir 6, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Perla Ruth Albertsdóttir 4/4, Steinunn Björnsdóttir 3, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Katrín Tinna Jensdóttir 1 og Rut Arnfjörð Jónsdóttir 1

Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 8, 32% og Hafdís Renötudóttir 3, 20%

Liðið ferðast til Innsbruck á þriðjudaginn, fyrsti leikur Íslands á EM er á föstudaginn.

Áfram Ísland!