Skólamót HSÍ | Frábær úrslitadagur að baki
Úrslit Skólamóts HSÍ fór fram í dag, fimmtudaginn 14.nóvember, í Safamýri. Eftir undankeppni Skólamótsins höfðu 14 lið unnu sér þátttökurétt á úrslitadeginum í 5.bekk og 17 lið í 6.bekk. Baráttan skein af keppendum en mótið einkenndist þó af gleði og skemmtun. Afar gaman var að sjá fjölda áhorfenda, bæði foreldra og samnemendur sem fengið höfðu leyfi kennara til að fylgja og styðja skólafélaga á úrslitadeginum.
Eftir milliriðla var komið að undanúrslitum. Í 5.bekk drengja átti Mýrarhúsaskóli tvö lið í undanúrslitum og léku þau gegn hvort öðru. Í hinum undanúrslitaleiknum léku Álftamýrarskóli gegn Hlíðaskóla. Svo fór að Mýrarhúsaskóli „Gulir“ unnu sína viðureign ásamt Álftamýrarskóla og léku þessir skólar því til úrslita. Eftir hörku viðureign var það Mýrarhúsaskóli sem bar sigurorð úr bítum 16-11 og eru því skólameistarar í 5.bekk drengja.
Í 5.bekk stúlkna léku Hlíðaskóli gegn Dalskóla en í hinni viðureigninni mættust Ingunnarskóli og Engjaskóli. Undanúrslitin fóru á þann veg að Dalskóli og Ingunnarskóli unnu sínar viðureignir og mættust í úrslitum. Það má með sanni segja að úrslitaviðureignin hafi reynt að taugarnar enda spennan gríðarleg. Eftir hefðbundinn leiktíma var staðan jöfn 3-3 og því þurfti að grípa til vítakeppni. Svo fór að Ingunnarskóli skoraði úr seinasta vítinu sínu og tryggðu sér sigurinn í 5.bekk stúlkna eftir bráðskemmtilega og spennandi vítakeppni.
Í 6.bekk drengja mættust Hörðuvallarskóli 9 og Hörðuvallarskóli 18 í öðrum undanúrslitaleiknum en í hinum voru það Mýrarhúsaskóli og Breiðagerðisskóli. Hörðuvallarskóli 18 sigraði sína viðureign nokkuð örugglega en öllu meiri spenna var í leik Mýrarhúsaskóla og Breiðagerðisskóla. Jafnt var á öllum tölum og eftir að hefðbundnum leiktíma var lokið stóðu leikar 9-9. Hvort lið tilnefndi því þrjár vítaskyttur en bæði lið skoruðu úr öllum sínum vítum og staðan því enn jöfn 12-12. Þá þurfti að grípa til bráðabana í vítakeppni og fór svo að lokum að Mýrarhúsaskóli sigraði 14-13 og komst í úrslit. Í úrslitum var það Hörðuvallarskóli sem sigraði Mýrarhúsaskóla 17-12 og tryggðu sér þar með titilinn.
Í 6.bekk stúlkna mættust Álftamýrarskóli og Mýrarhúsaskóli annarsvegar og Hörðuvallarskóli 12 og Hörðuvallarskóli 13 hinsvegar en Hörðuvallarskóli sló öll með í fjölda þátttökuliða í riðlakeppninni og sendu 18 lið til leiks. Svo fór að Mýrarhúsaskóli og Hörðuvallarskóli 12 sigruðu sínar viðureignir og mættust í úrslitum. Hörðuvallarskóli var skrefinu framar í annars spennandi viðureign og sigruðu 11-8 í úrslitunum.
Við óskum sigurvegurum Skólamóts HSÍ innilega til hamingju með titilinn og jafnframt skilum við kærum þökkum til allra skólastjórnenda og kennara sem gerðu þetta mót að veruleika með okkur.
Sigurvegarar :
5.bekkur drengir – Mýrarhúsaskóli
5.bekkur stúlkur – Ingunnarskóli
6.bekkur drengir – Hörðuvallarskóli
6.bekkur stúlkur – Hörðuvallarskóli