U-18 karla | Tap gegn Spánverjum í hörkuleik

U-18 ára landslið karla lék gegn Spánverjum á EM í Svartfjallalandi í dag, fyrir leikinn var vitað að sigur myndi tryggja strákunum okkar sæti í undanúrslitum og því var allt lagt í sölurnar.

Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti bæði í vörn og sókn og náði 5 marka forystu þegar um 15 mínútur voru liðnar. Spánverjar færðu þá varnarleik sinn framar og komust smám saman inn í leikinn. Þegar liðin gengu til búningsklefa voru strákarnir okkar með tveggja marka forystu, staðan 13-11.

Það tók Spánverja ekki nema nokkrar mínútur að jafna leikinn í síðari hálfleik og eftir það skiptust liðin á að skora þangað til um 10 mínútur voru til leiksloka. Þá kom slæmur kafli hjá íslenska liðinu og Spánverjar gengu á lagið, sem skilaði þeim að lokum 5 marka sigri, 27-32.

Markaskorar Íslands:
Dagur Árni Heimisson 9, Ágúst Guðmundsson 9, Harri Halldórsson 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Jens Bragi Bergþórsson 2, Garðar Ingi Sindrason 2 og Magnús Dagur Jónatansson 1.

Jens Sigurðarson varði 8 skot og Elías Sindri Pilman varði 1 skot.

Þó að íslenska liði hafi tapað í dag verður að hrósa strákunum sem lögðu allt í sölurnar, Spánverjar voru einfaldlega betri á lokakaflanum og unnu verðskuldað. Á morgun er frídagur en á fimmtudag fá strákarnir okkar annan möguleika á að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Þá mætir íslenska liðið Norðmönnum og hefst leikurinn kl. 12.30 að íslenskum tíma. Við minnum á ítarlega umfjöllun handbolti.is frá mótinu.