Stelpurnar í U20-kvenna töpuðu með minnsta mun gegn Portúgal í sannkölluðum spennutrylli á HM í Skopje í dag, 26-25.
Leikurinn var í raun stál í stál allt frá byrjun. Portúgal hafði frumkvæðið framan af og voru með tveggja marka forystu framyfir miðjan fyrri hálfleik. Þá náðu stelpurnar okkar afar góðum kafla og voru komnar einu marki yfir þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af hálfleiknum, en Portúgal svöruðu þó hratt fyrir sig og náðu eins marks forystu í hálfleik, 12-11.
Síðari hálfleikurinn spilaðist alveg eins og sá fyrri og liðin skiptust á forystunni. Þegar um fimm mínútur voru eftir tók Ísland leikhlé í stöðunni 24-22 fyrir Portúgal. Vörnin þéttist í kjölfarið og af miklu harðfylgi náðu stelpurnar okkar að jafna metin í 24-24. Lokamínúturnar voru síðan æsispennandi. Liðin skoruðu sitthvort markið og í stöðunni 25-25 klikkuðu Portúgal á skoti og Ísland fékk boltann. Stelpunum tókst þó ekki að skora og Portúgal svöruðu með marki úr hraðaupphlaupi. Ísland hafði tækifæri á jafna metin í lokasókninni, en náði því miður ekki að skora og lokatölur því 26-25 fyrir Portúgal.
Tapið var svo sannarlega sárgrætilegt, enda heildarframmistaða liðsins mjög góð í dag. Elín Klara Þorkelsdóttir dró vagninn sóknarlega fyrir Ísland, en hún skoraði átta mörk og var valin maður leiksins. Í markinu átti Ethel Gyða Bjarnasen annan stórleikinn í röð en hún varði 18 skot, þar af tvö vítaköst. Portúgal hafa á að skipa frábæru liði en þær lentu meðal annars í þriðja sæti á EM í Rúmeníu í fyrra og sigruðu þar stelpurnar okkar með 16 marka mun í riðlakeppni mótsins. Tapið í dag þýðir að Ísland mætir ríkjandi Evrópumeisturum Ungverja í 8-liða úrslitum mótsins, en leikurinn fer fram á fimmtudag kl. 16.00 að íslenskum tíma.
Markaskor íslenska liðsins: Elín Klara Þorkelsdóttir 8, Inga Dís Jóhannsdóttir, Katrín Anna Ásmundsdóttir, Lilja Ágústsdóttir og Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 2, Elísa Elíasdóttir, Rakel Guðmundsdóttir og Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1 mark hver.
Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 18 bolta.