Stelpurnar í U20 kvenna unnu í dag baráttusigur gegn Angóla í fyrsta leik liðsins á HM í Skopje. Leikurinn fór vel af stað fyrir íslenska liðið sem komst fljótt í 4-0. Afríkumeistararnir voru þó fljótar að koma sér aftur inn í leikinn og náðu að jafna muninn fyrir hálfleik þar sem staðan var 9-9.
Í síðari hálfleik náðu Angóla frumkvæðinu í leiknum til sín og voru komnar þremur mörkum yfir, 16-13 þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum. Þá sýndu stelpurnar okkar gríðarlegan karakter, unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn á ný og settu í sannkallaðan fluggír á lokakaflanum. Lokatölur 24-19 Íslandi í vil og fyrsti sigurinn á HM kominn í hús. Katrín Anna Ásmundsdóttir átti stórleik í hægra horninu og skoraði 7 mörk og í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen afar vel. Elín Klara Þorkelsdóttir stýrði leik liðsins af festu og skoraði afar mikilvæg mörk, en hún var valin maður leiksins að leik loknum.
Lið Angóla er afar erfitt viðureignar, með stóra og öfluga leikmenn innanborðs. Það þurfti því mikla orku til að vinna sigurinn í dag og kærkomið að stelpurnar fá strax frídag á morgun. Hann verður nýttur til að hlaða á batteríin fyrir næsta leik liðsins sem er gegn heimastúlkum í Norður-Makedóníu á föstudaginn.
Markaskor íslenska liðsins: Katrín Anna Ásmundsdóttir 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Embla Steindórsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Lilja Ágústsdóttir 2, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, Elísa Elíasdóttir og Inga Dís Jóhannsdóttir 1 mark hver.
Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 16 skot.