HSÍ | Gísli Þorgeir Kristjánsson er íþróttamaður ársins 2023
Í kvöld var Íþróttamaður ársins útnefndur af Samtökum íþróttafréttamanna í beinni útsendingu á RÚV. Gísli Þorgeir Kristjánsson var eini handknattleiksmaðurinn af þeim tíu efstu sem tilnefnd voru sem Íþróttamaður ársins. Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari Norska kvennalandsliðsins var tilnefndur sem þjálfari ársins 2023.
Samtök Íþróttafréttamanna völdu Gísla Þorgeir Kristjánsson, 24 ára leikstjórnandi Madgeburg í Þýskalandi og A landsliðs karla sem Íþróttamann ársins 2023 með 500 atkvæðum af 560 mögulegum atkvæðum og er þetta þriðja árið í röð sem handknattleiksmaður hlýtur titilinn eftirsótta. Gísli Þorgeir vann í vor ásamt liðsfélögum sínum í Magdeburg Meistaradeild EHF ásamt því fá silfurverðlaun í þýsku bikarkeppninni. Gísli Þorgeir var valinn mikilvægasti leikmaður Final 4 úrslitahelgi Meistaradeildarinnar ásamt því að vera valinn besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar og besti leikmaður Magdeburg á síðustu leiktíð.
Með landsliðinu lék Gísli Þorgeir á HM í Svíþjóð og Póllandi í janúar en á árinu tók hann þátt í 12 landsleikjum og skorað í þeim 37 mörk. Gísli á að baki 51 landsleik sem hann hefur skorað í 113 mörk. Gísli Þorgeir heldur af landi brott í fyrramálið þegar landsliðið heldur til Austurríkis þar sem það leikur tvo vináttulandsleiki áður en það hefur leik á EM 2024.
HSÍ óskar Gísla Þorgeiri Kristjánssyni til hamingju með verðlaunin og Þóri Hergeirssyni með tilnefninguna.
Íþróttamenn ársins úr röðum handknattleiksfólks:
1964 – Sigríður Sigurðardóttir, Val.
1968 – Geir Hallsteinsson, FH.
1972 – Hjalti Einarsson, FH.
1989 – Alfreð Gíslason, Bidasoa.
1997 – Geir Sveinsson, Montpellier.
2002 – Ólafur Stefánsson, Magdeburg.
2003 – Ólafur Stefánsson, Ciudad Real.
2006 – Guðjón Valur Sigurðsson, Gummersbach.
2008 – Ólafur Stefánsson, Ciudad Real.
2009 – Ólafur Stefánsson, Ciudad Real.
2010 – Alexander Petersson, Füchse Berlin.
2012 – Aron Pálmarsson, THW Kiel.
2021 – Ómar Ingi Magnússon, SC Magdeburg.
2022 – Ómar Ingi Magnússon, SC Magdeburg.
2023 – Gísli Þorgeir Kristjánsson, SC Magdeburg.