A kvenna | Tap gegn Angóla í hörku leik
Stelpurnar okkar töpuðu í dag sínum síðasta leik á Posten Cup þegar liðið mætti Afríkumeisturum Angóla. Í hálfleik var staðan 13 – 11 Angóla í vil. Lið Angóla hafði frumkvæðið mest allan fyrri hálfleikinn en okkar stelpur aldrei langt undan.
Síðari hálfleikur spilaðist að mörgu leiti svipað og sá fyrri. Angóla var með frumkvæðið og stelpurnar okkar líkt og í fyrri hálfleik skammt undan. Baráttan í liðinu var til fyrirmyndar, liðsheildin sterk og spilamennskan á stórum köflum góð.
Arnar þjálfari liðsins rúllaði liðinu vel og fengu allir leikmenn liðsins spiltíma í dag.
Niðurstaðan því í mótinu þrjú töp gegn sterkum andstæðingum. Framfarir má merkja á leik liðsins og verður virkilega gaman að sjá stelpurnar okkar hefja leik á HM en fyrsti leikur liðsins er einmitt nk. fimmtudag gegn Slóveníu.
Morgundaginn mun liðið nota til að ná leik dagsins úr sér í lyftingarsalnum með styrktarþjálfara liðsins Hirti Hinrikssyni og í framhaldi hvíla sig og leið þétta raðirnar fyrir komandi átök.
Liðið ferðast svo saman á þriðjudag til Stavanger þar sem að riðlakeppni stelpnanna á HM fer fram. Þar er liðið í riðli saman með Slóveníu, Frakklandi og Angóla.
Spennan innan hópsins er að magnast fyrir mótinu og allir leikmenn meiðslalausir eftir mótið og andinn innan hópsins frábær.
Mörk Íslands í dag skoruðu:
Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5, Sandra Erlingsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Díana Dögg Magnúsdóttir 2, Perla Ruth Albertsdóttir 2, Andrea Jacobsen 1, Lilja Ágústsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1, Elín Rósa Magnúsdóttir og Katrín Tinna Jensdóttir 1 mark.
Hafdís Renötudóttir 7 varin skot og Elín Jóna Þorsteinsdóttir 4 skot.
Besti leikmaður Íslands í dag var valin Þórey Anna Ásgeirsdóttir.