Handboltaskóli HSÍ | Yfir 100 krakkar tóku þátt

Handboltaskóli HSÍ fór fram í 28. skiptið um nýliðna helgi í Kaplakrika í Hafnarfirði. Yfir 100 stúlkur og drengir fædd 2010 tóku þátt í þetta skiptið en tilnefningar voru, eins og undanfarin ár, í höndum aðildarfélaga HSÍ.

Auk fyrirlestra og hádegisverðar í boði HSÍ, æfðu krakkarnir fjórum sinnum saman yfir helgina. Skólastjóri handboltaskólans var Jón Gunnlaugur Viggósson.


Markmannsþjálfarateymi HSÍ sá um séræfingar fyrir markmenn en auk þeirra komu þrautreyndir þjálfarar og leikmenn úr Olís deildinni að vel heppnuðum handboltaskóla.