Útbreiðsla | Frábæru skólamóti lokið
Handknattleikssamband Íslands stóð fyrir skólamóti í handknattleik 17-19.apríl síðastliðin en mótið var haldið í samstarfi við grunnskólana á höfuborgarsvæðinu. Yfir 100 lið frá 25 grunnskólum tóku þátt í mótinu að þessu sinni.
Leikið var í 5. og 6.bekk drengja og stúlkna. Það má áætla að á undanförnum þremur dögum hafi hátt í 1.000 krakkar tekið þátt í mótinu með einum eða öðrum hætti.
17. og 18 apríl var leikið í riðlakeppni þar sem sigurliðin komust í úrslit sem leikin var 19.apríl. 24 lið komust áfram ýmist í 8 liða úrslit eða undanúrslit.
Það var gríðarlega mikil stemming þegar úrslitaleikirnir fóru fram en fjölmargir grunnskólar heimiliðu heilu bekkjunum að mæta í rútu og styðja sín lið til sigurs. Trommur og söngvar ómuðu í íþróttahúsinu í Safamýri á meðan leikjum stóð.
Engidalsskóli stóð uppi sem sigurvegari í 5.bekk stúlkna eftir sigur á Sæmundarskóla 9-8 í æsispennandi leik. Það var svo Hlíðaskóli sem bar sigur úr býtum í 5.bekk drengja eftir sigur á Áslandsskóla 9-8.
Í 6.bekk stúlkna var það Breiðagerðisskóli sem sigraði Ingunnarskóla 8-7 og í 6.bekk drengja sigraði Engidalsskóli lið Hraunvallaskóla 15-12.
Við óskum þessum skólum innilega til hamingju með titilinn “Skólameistari HSÍ 2023”. Jafnframt þökkum við þeim fjölmörgu skólum sem tóku þátt í vel heppnuð skólamóti í ár.