Leikreglur | Breytingar frá 1. júlí
Í mars sl. tilkynnti Alþjóðahandknattleikssambandið (IHF) um fjórar breytingar á leikreglum sem taka gildi frá 1. júlí.
Að þessu sinni verða leikreglurnar eingöngu gefnar út á PDF formi en ekki á pappír eins og tíðkast hefur. Leikreglurnar hafa verið uppfærðar á heimasíðu HSÍ.
Breytingar hafa verið prófaðar í nokkrum landskeppnum undanfarin keppnistímabil og í öllum Evrópu- og heimsmeistaramótum yngri landsliða í sumar er farið eftir nýju reglunum. Nýju reglurnar verða í forgrunni á haustfundum dómara, eftirlitsmanna og þjálfara í ágúst nk.
Nýju reglurnar eiga við um:
• Frumkast
• Leikleysu
• Skot í höfuð markvarðar
• Klísturslaus bolti
Frumkast
Í stað þess að taka frumkast með því að stíga á miðlínu hefur nú verið merkt frumkastsvæði (4 metrar í þvermál), frumkastið skal tekið innan þess svæðis. Á þeim leikvöllum þar sem ekki er miðjuhringur má ennþá styðjast við gömlu regluna (á við um yngri flokka).
Leikleysa
Eina breytingin á leikleysu er fjöldi sending eftir að dómara gefa merki um leikleysu. Í stað 6 sendinga eru nú að hámarki leyfðar 4 sendingar í nýju reglunni.
Skot í höfuð markmanns
Ný leikregla 8:8 d), þegar skot frá leikmanni sem skýtur óhindrað í opnum leik fer í höfuð markvarðar.
Þetta er stór breyting á reglunum sem eykur öryggi markvarða, það er til að fækka skotum að höfði og mögulega að varna meiðslum. Opin skot (þar sem enginn er á milli skotmanns og markvarðar) úr öllum leikstöðum sem fara beint í höfuð markvarðar varða brottvísun þess sem skaut.
Skot sem fara í aðra líkamshluta og síðan í höfuð falla ekki undir þessa reglu, sem og endurkast af marki. Ennfremur á þetta ekki við ef markvörður reynir að verja með höfði, til dæmis þegar reynt er að skora með vippu og markmaður skallar boltann frá marki.
Skot í höfuð kyrrstæðs markvarðar í vítaköstum varða ennþá útilokun.
Klísturslaus bolti
Í reglu 3:2 er bætt við kafla um klísturslausa bolta, þeir eru bæði minni og léttari en hefðbundnir boltar.
Fyrir hönd dómaranefnar HSÍ,
Kristján Gaukur Kristjánsson, formaður.