A landslið karla | Sigur gegn Frökkum í kvöld
Strákarnir okkar léku í kvöld sinn annan leik í milliriðli gegn Frakklandi. Enn á ný bankaði Covid veitan upp á rétt fyrir leik og fækkaði leikmönnum um tvo þegar þrír klukkutímar voru í leik. 14 leikmenn voru á skýrslu af þeim sökum og þar af voru það Magnús Óli Magnússon og Vignir Stefánsson sem komu til liðs við hópinn í gær og náðu ekki einni æfingu með liðinu fyrir leik.
Jafnræði var með liðunum fyrstu mínútur fyrri hálfleiks og komst Ísland í fyrsta skiptið yfir í stöðunni 4 – 3 þegar sex mínútur voru liðnar af leiknum. Við það settu strákarnir okkar allt í gang og spiluðu frábærlega í vörn og sókn og Frakkar áttu engin svör við gegn frábæru landsliði Íslands. Þegar dómarar kvöldsins blésu til loka fyrri hálfleiks var staðan 17 – 10.
Íslenska liðið mætti af krafti inn í seinni hálfleikinn og staðráðnum að halda áfram þar sem frá var horfið í fyrri hálfleik. Vör og sókn var óaðfinnanleg og Viktor Gísli Hallgrímsson var stórkostlegur í kvöld í markinu. Þegar mest var náði Frakklandi að minnka munin niður í sex mörk en nær komust þeir aldrei. Niðurstaðan í þessum magnaða leik var átta marka sigur, 29 – 21.
Markaskorarar Íslands:
Ómar Ingi Magnússon 10, Viggó Kristjánsson 9, Elliði Snær Viðarsson 4, Elvar Ásgeirsson 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Teitur Örn Einarsson 1 og Daníel Þór Ingason 1 mark.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði 15 skot og þar af 1 vítaskot.
Viktor Gísli var valinn maður leikssins af mótshöldurum.
Næsti leikur strákanna okkar er gegn Króatíu á mánudaginn og hefst hann kl. 14:30.