A landslið kvenna | 2. sætið staðreynd í Cheb
Stelpurnar okkar léku lokaleik sinn á fjögura liða móti í Cheb með því að leika við heimakonur frá Tékklandi. Nokkuð jafnræði var með liðunum fyrstu fimm mínútur leiksins en eftir það náðu Tékkar yfirhöndinni. Þegar mest var munurinn kominn í fimm mörk en þá náðu stelpurnar okkar að koma sér inn í leikinn með öflugri vörn og góðum sóknarleik. Þegar dómarar leiksins blésu til hálfleiks var staðan 15- – 12 fyrir Tékka.
Íslenska liðið mætti einbeitt inn í seinni hálfleikinn og greinilegt að Arnar Pétursson hefur náð að stilla liðið af því hratt og örugglega náðu þær að saxa niður forskot Tékklands. Á tíundu mínútu náði Sandra Erlingsdóttir að koma Íslandi yfir úr vítakasti og voru stelpurnar okkar með 1.-2. marka forystu stærsta hluta seinni hálfleiks. Eftir fjörugar lokamínútur náðu Tékkar að kreista fram 1.marks sigur.
Íslenska liðið lék frábærlega í þessum leik að undanskildu fyrstu 10 mínútum leiksins gegn sterku liði Tékka sem eru á leið á lokakeppni HM sem hefst í næstu viku.
Besti leikmaður Íslands í leiknum var valin Díana Dögg Magnúsdóttir sem skoraði 4 mörk og stóð vörnina frábærlega.
Mörk Íslands skoruðu: Sandra Erlingsdóttir 6/4, Andrea Jacobsen 4, Díana Dögg Magnúsdóttir 4, Þórey Rósa Magnúsdóttir 3, Ragnheiður Júlíusdóttir 2, Unnur Ómarsdóttir 2, Thea Imani Sturludóttir 1, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Sunna Jónsdóttir 1 og Harpa Valey Gylfadóttir 1.
Hafdís Renötudóttir varði 9 skot.
Frammistaða stelpnanna hefur verið góð í þessu móti og mikill stígandi í þeirra leik.
Liðið heldur heim á leið á morgun eftir vel heppnaða ferð.