68. ársþing HSÍ var haldið í dag, laugardaginn 5. apríl 

Í skýrslu stjórnar kom fram síðastliðið starfs ár hefur verið viðburðarríkt þar sem mæst hafa andstæðurnar góður árangur og erfið fjárhagsstaða. Landslið okkar hafa á undanförnum árum átt mikilli velgengni að fagna með þátttöku í stórmótum jafnt í A- landsliðum sem og yngri landsliðum. Þetta kallar á mikið fjármagn.

HSÍ hefur í marga áratugi fjármagnað sig sjálft að stærstum hluta með öflugum bakhjörlum sem og með öðrum tekjum. Þessi róður er ávallt þungur og ljóst að opinberir aðilar verða á hverjum tíma að meta gildi íþrótta í samfélaginu og hverju íþróttastarf skilar til baka.

Á þinginu kom fram að fjárhagsstaða sambandsins nú er erfið en lagaðist á árinu 2024 og nemur tapið nú um 43 milljónum króna. Tapið skýrist nær eingöngu af þátttöku í stórmótum og fjármögnun sjónvarpsútsendinga frá leikjum hér heima. Handboltapassinn hefur nú þegar náð núllpunkti og að öllu óbreyttu eru bjartari tímar fram undan og má ætla að hagnaður verði af starfsemi sambandsins á árinu 2025.

Guðmundur B. Ólafsson var á þinginu sæmdur æðsta heiðurmerki HSÍ á krossi og heiðurskrossi ÍSÍ fyrir framúrskarandi störf fyrir HSÍ og fyrir handboltahreyfinguna í gegnum síðustu áratugi. Guðmundur hætti í dag sem formaður HSÍ en hann hefur verið formaður HSÍ síðan 2013 og varaformaður HSÍ var Guðmundur 2009 – 2013.

Gullmerki HSÍ fengu Reynir Stefánsson, fráfarandi varaformaður HSÍ og Páll Þórólfsson, fráfarandi formaður landsliðsnefndar karla fyrir störf sín í þágu HSÍ og handknattleikshreyfinguna.

Sjálfkjörið var á þinginu í embætti formanns, varaformanns, formanns markaðsnefndar og formanns fræðslu- og útbreiðslunefndar og sjálfkjörið var í varastjórn HSÍ. Kosið var um formann A landsliðsnefndar karla og var Ásgeir Sveinnsson kjörinn í það embætti í dag.

Þau Jón Halldórsson, Ásgeir Jónsson og Ásgeir Sveinsson koma nýir inn í stjórn.
Stjórn HSÍ skipa eftir þingið í dag Jón Halldórsson, formaður, Ásgeir Jónsson varaformaður, Sigurborg Kristinsdóttir, gjaldkeri, Bjarni Ákason, markaðnefnd, Guðríður Guðjónsdóttir, formaður landsliðsnefndar kvenna, Ásgeir Sveinsson, formaður landsliðsnefndar karla, Kristín Þórðardóttir, formaður mótanefndar, Inga Lilja Lárusdóttir, fræðslu- og útbreiðslunefnd og Ólafur Örn Haraldsson, dómaranefnd.

Varamenn í stjórn HSÍ eru Haddur Júlíus Stefánsson, Harpa Vífilsdóttir og Helga Birna Brynjólfsdóttir.